Nýsköpunarmót Álklasans varð haldið í Háskóla Reykjavíkur þriðjudaginn 28. mars síðastliðinn. Þar komu saman sérfræðingar í orkusæknum iðnaði, vísindamenn, nemendur og áhugasamir til þess að hlýða á áhugaverð erindi, mynda ný og styrkja gömul tengsl og hvetja ungu kynslóðina til góðra verka. Þetta var í fimmta skipti sem viðburðurinn var haldinn og voru þátttakendur einhuga um að vel hefði tekist til, enda mörg mjög áhugverð erindi á dagskrá.
Forsetar verkfræðideilda HR og HÍ settu mótið en fyrsti flytjandi erindis var Dr. Roman Düssel frá þýska álfyrirtækinu Trimet. Eins og margur veit þá stendur Evrópskur iðnaður fyrir ýmsum áskorunum, eins og orkukreppu og lýðfræðilegum breytingum en Roman sagði mótsgestum frá þeim og hvernig Trimet er að bregðast við. Eyrún Linnet, stofnandi og stjórnarformaður nýsköpunarfyrirtækisins Snerpa Power kom svo í pontu og sagði frá verkefnum fyrirtækisins, en það leitast að því að búa Ísland betur undir orkuskiptin með því að nýta reglunarafl frá stórorkunotendum.
Að kaffihlé loknu var farið í styttri erindi, en fyrstur reið á svið Rúnar Unnþórsson, prófessor við Háskóla Íslands og fjallaði um rannsóknir sínar og nýsköpunarfyrirtækisins Alor á álrafhlöðum, en nýafstaðnar prófanir sýndu áhugaverðar og jákvæðar niðurstöður. Christiaan Richter sem einnig er prófessor við HÍ sagði síðan frá tveimur áhugaverðum rannsóknarverkefnum – REVEAL og ALICE, en það fyrra snýr að því að nota ál sem orkugjafa og það seinna að bæta endurnýtingu áls með framleiðslu á vetni. Að því loknu sögðu tveir dósentar úr HR, Erna Sif Arnardóttir og Anna Sigríður Islind frá svefnrannsóknum á vaktavinnufólki hjá Alcoa Fjarðaráli, en með beitingu svefnrannsókna og tölvutækni hafa þær fylgst með og betrumbætt svefn og þar með heilsu vaktastarfsfólks Alcoa. Kristján Leósson, vísindastjóri nýsköpunarfyrirtækisins DTE, kom svo og sagði frá nýlegri þróun innan fyrirtækisins sem hefur vaxið hratt á undanförnum misserum. Fyrirtækið vinnur að því að umbylta því hvernig málmframleiðendur fylgjast með og votta gæði vara sinna en DTE notar til þess leisertækni. Síðasta erindi mótsins var frá henni Guðrúnu Sævarsdóttur, prófessor við Háskólann í Reykjavík, en hún kom og sagði frá verkefninu SisAl, sem er stórt evrópskt samstarfsverkefni. SisAl snýr að því að breyta úrgangi úr bæði kísiljárns- og álframleiðslu yfir í ýmis verðmæti og þar með gera iðnaðinn mun umhverfisvænni.
Hefð er fyrir því að veita nemendum hvatningarviðurkenningar fyrir verkefni sem hafa tengingu við Álklasann, en Álklasinn heldur einnig úti hugmyndagátt þar sem nemendur geta fengið hugmyndir að verkefnum og unnið þau með fyrirtækjum í klasanum. Fjögur verkefni fengu styrki í ár:
Arnar Guðnason fékk viðurkenningu fyrir meistaraverkefni sitt við Háskóla Íslands, sem ber titilinn „Digital Transformation in the Aluminum Industry – from an Innovation Ecosystem perspective“, en þar rannsakaði hann hvernig lykilstarfshópar í áliðnaði geta haft áhrif á framvindu nýsköpunar.
Daníel Þór Gunnarsson, meistaranemi við Háskólann í Reykjavík fékk viðurkenningu fyrir rannsóknarverkefni sitt sem lýtur að framleiðslu á áli með eðalskautum, en það er ein af þeim leiðum sem eru til skoðunar til að gera áliðnaðinn kolefnishlutlausan. Yfirskrift verkefnisins er „Bestun á rekstrarparametrum í eðalskautakerjum fyrir álframleiðslu“.
Doktorsneminn Hákon Valur Haraldsson við Háskólann í Reykjavík fékk viðurkenningu fyrir verkefni sitt „MHD hermun á ljósboga í kísilframleiðsluferli“, en hann vinnur að hönnun forrits til þess að spá fyrir um hegðun ljósboga í kísilframleiðsluofnum og nýta það til að minnka kolefnisspor framleiðslunnar.
Að lokum fengu Júlía Huang og Heiðar Snær Ásgeirsson, B.Sc. nemar við Háskóla Íslands viðurkenningu fyrir verkefni sitt „Nýting úrgangsefna sem afoxara í kísiljárnframleiðslu“ en verkefni þeirra gek út á þróun á kögglunartækni með áherslu á að endurnýta kolaryk íslenskra álvera, kerbrot og plastúrgang, yfir í afoxara fyrir kísilmálmiðnað.
Styrktaraðilar hvatningarviðurkenninganna eru Alcoa Fjarðaál, DTE, Efla, Landsbankinn, Launafl, Mannvit, Norðurál og Rio Tinto á Íslandi.
Álklasinn vill þakka öllum gestum, fyrirlesurum og nemendum fyrir komuna!