Michel Reverdy, senior manager technology transfer hjá Emirates Global Aluminum fer yfir sögu álfram…
Michel Reverdy, senior manager technology transfer hjá Emirates Global Aluminum fer yfir sögu álframleiðslu í Frakklandi.

Nýsköpunarmót Álklasans 2025 var haldið í áttunda skipti í Háskólanum í Reykjavík fimmtudaginn 13. mars síðastliðinn. Frábær dagskrá var á viðburðinum þar sem umfjöllunarefnin voru allt frá sögulegum ágripum af Álframleiðslu yfir í fjallabifreiðar framtíðar! Í lok móts voru svo viðurkenningar færðar fjórum nemendaverkefnum tengd geiranum fyrir framúrskarandi árangur.

Deildarforseti verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík, Ármann Gylfson, setti fundinn ásamt Sigurði Magnús Garðarsyni, kollega sínum úr Háskóla Íslands. Fyrsti fyrirlesari viðburðarins var Michel Reverdy hjá Emirates Global Aluminium, en erindi hans var bæði sögulegt yfirferð á franska áliðnaðinum ásamt því hvernig auka eigi nýtni í álframleiðslu með hækkun straums. Kristjana Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Ísar, steig síðan á stokk og sagði frá Álbílnum sem Ísar er að þróa og smíða, en miklir möguleikar eru fólgnir í því að nota ál sem aðalefnivið fjalla- og óbyggðarbifreiða.

Að loknu kaffihlé sagði Guðlaugur Bjarki Lúðvíksson, framkvæmdastjóri öryggis- umhverfis- og umbótasviðs hjá Norðuráli frá nýju umhverfisvænu framleiðslulínu þeirra. Eyrún Linnet, tæknistjóri og stofnandi SnerpaPower, fræddi gesti síðan um hugbúnaðarlausn SnerpaPower en mikil þróun hefur átt sér stað hjá fyrirtækinu frá því að við heyrðum frá þeim á Nýsköpunarmótinu 2022. Ingibjörg Gróa Magnúsdóttir, fræðslustjóri Alcoa Fjarðaál ræddi svo um þjálfunarferlin á Reyðarfirði en hún hefur séð fyrir miklum umbótum á þjálfunarkerfinu frá því að hafa tekið við hlutverki fræðslustjóra fyrir ári. Vegna tímaleysis ákvað síðasti fyrirlesarinn, Guðrún Arnbjörg Sævarsdóttir, að fresta umfjöllun hennar um rafgreiningu kísils þar til á næsta ári.

Guðlaugur Bjarki Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Umhverfis-, öryggis- og umbótasviðs Norðuráls

Í lokin fóru svo fram nemendaviðurkenningar, en hefð er fyrir því að veita nemendum hvatningarviðurkenningar fyrir verkefni á sviði ál- og kísiliðnaðar. Álklasinn heldur einnig úti hugmyndagátt þar sem nemendur geta fengið hugmyndir að verkefnum og unnið þau með fyrirtækjum í klasanum. Fjögur verkefni fengu viðurkenningu í ár ásamt 150.000 króna styrk:

Valdimar Olsen fékk viðurkenningu fyrir meistaraverkefni sitt hjá HR: Bein framleiðsla ál-kísilmelmis með rafgreiningu, án losunar gróðurhúsalofttegunda.

Sigríður Borhildur Jónsdóttir fékk viðurkenningu fyrir meistaraverkefni sitt hjá HR: Áhrif melmis á eiginleika kísilryks frá kísiljárnsframleiðslu.

Antonio Vazquez Prudencio fékk viðurkenningu fyrir doktorsverkefni sitt hjá HÍ: Refining processes in molten aluminum, studied using laser-induced breakdown spectroscopy.

Bryndís Blöndal, Eyrún Ragnarsdóttir og Guðmundur Rafn Jónsson nemendur stóriðjuskóla Rio Tinto fengu svo viðurkenningu fyrir umbótaverkefni sitt: Minnkun tafa á aðalsög steypuskála.

Styrktaraðilar hvatningarviðurkenninga í ár eru Alcoa Fjarðaál, COWI, Landsbankinn, Norðurál, Rio Tinto á Íslandi, Samál, Samtök Iðnaðarins, Tæknisetur, DTE og Efla.

Nemendur sem hlutu hvatningarviðurkenningu ásamt fulltrúum stuðningsaðila.

Álklasinn vill þakka öllum gestum, fyrirlesurum og nemendum fyrir komuna!