Dr. Kristján Leósson þróunarstjóri DTE var meðal þeirra sem fluttu erindi á mótinu
Dr. Kristján Leósson þróunarstjóri DTE var meðal þeirra sem fluttu erindi á mótinu

Fjórir háskólanemar fengu hvatningarviðurkenningar á vel sóttu Nýsköpunarmóti Álklasans í hátíðarsal Háskóla Íslands. Snjallvæðing, loftslagsmál og hringrásarhagkerfið voru ofarlega á baugi í þeim erindum sem flutt voru á mótinu og endurspegluðust þær áherslur í þeim nemendaverkefnum sem fengu viðurkenningu.

Þetta er í þriðja sinn sem Nýsköpunarmót Álklasans er haldið. Að því standa Álklasinn, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtök iðnaðarins og Samál. 

Það var Guðbjörg Óskarsdóttir klasastjóri Álklasans sem veitti hvatningarverðlaunin og vakti af því tilefni máls á hugmyndagátt á heimasíðu Álklasans, þar sem háskólanemar geta sótt hugmyndir að verkefnum. Nemendurnir sem fengu hvatningarviðurkenningar í ár eru: 

Caroline Mary Medion (HR): Improving Current Efficiency in L-T Aluminum Electrolysis with Vertical Inert Electrodes.

Diljá Heba Petersen (HÍ): Endurnýtingarmöguleikar slaggs frá kísiljárnframleiðslu.

Eymar Andri Birgisson (HR): Sjálfvirknivæðing á kerviðgerðum með tölvusjón.

Hinrik Már Rögnvaldsson (HÍ): Flokkunarmódel planaðrar áltöku.

Að hvatningarviðurkenningunni standa fyrirtækin, Mannvit, Efla, Hamar, Snókur, Rio Tinto, Alcoa Fjarðaál, Norðurál og Landsbankinn, en auk þess bjó Álverið í Garðabæ, sem sérhæfir sig í yfirborðsmeðhöndlun á áli, til álviðurkenningarskildi handa viðurkenningarhöfum.

Í kaffihléi gafst gestum færi á því að bera íslenska álbílinn Ísar augum en hann var frumsýndur á Nýsköpunarmóti Álklasans fyrir tveimur árum síðan og hefur nú tekið miklum breytingum.

Ljósmyndir frá viðburðinum má finna hér