Tækifæri í loftslagsvænum afurðum, en bæta þarf samkeppnishæfni Íslands á ýmsum sviðum segir í nýútkominni skýrslu
Þegar horft er til útflutnings hjá fyrirtækjum í þeim klasa sem myndast hefur í áliðnaði, varðar miklu að geta átt í viðskiptum við stóriðjufyrirtæki hér á landi. En til þess að áliðnaður og klasinn í kringum málmframleiðslu hér á landi blómstri, þarf að bæta samkeppnishæfni Íslands á ýmsum sviðum.
Þetta kemur fram í skýrslu um útflutningstækifæri fyrirtækja í Álklasanum sem er nýkomin út hjá Íslandsstofu, en að henni standa einnig Samál og Álklasinn. Við gerð skýrslunnar var rætt við fulltrúa 33 fyrirtækja sem eru í málmframleiðslu og klasanum í kringum hana. Magnús Júlíusson verkfræðingur hafði umsjón með gerð skýrslunnar.
Helmingur þeirra fyrirtækja sem þátt tóku í gerð skýrslunnar er þegar með starfsemi á erlendum mörkuðum og 25% þeirra sem ekki stunda útflutning horfa út fyrir landsteinana. Útflutningur snýst fyrst og fremst um þekkingu sem byggst hefur upp í greininni hér á landi, s.s. hjá verkfræðistofum. En nýsköpun má finna víðar, m.a. í flutningum, efnagreiningum og hönnun á vélbúnaði við framleiðslu áls.
Fram kemur í skýrslunni að það sé jákvæð þróun að öll stóriðjufyrirtækin hafi fjárfest í sínum rekstri og fetað sig þannig lengra eftir virðiskeðjunni, en það hefur m.a. verið gert í samstarfi við mörg fyrirtæki í klasanum hér á landi. Einnig felist tækifæri í sérmerktum loftslagsvænum álafurðum, en öll álverin hér á landi hafa markaðssett sínar afurðir með þeim hætti.
Áþreifanlegur skortur er hins vegar á starfsfólki með sérþekkingu í framleiðsluferlum og rekstri iðnvera. Varða þarf betur leiðina frá iðnnámi að háskólagráðu, tryggja þarf gæði vinnustaðanáms og efla þarf rannsókna- og styrkjaumhverfi. Óstöðug rekstrarumhverfi hefur háð fyrirtækjum í klasanum og auglýst er eftir stefnu stjórnvalda í orkuiðnaði, m.a. til að tryggja aukna samkeppni á orkumarkaði og auka skilvirkni í flutningi. Þá er launakostnaður hár í alþjóðlegum samanburði.
Hægt er að kynna sér skýrsluna í heild sinni hér