Siðareglur fyrir klasasamstarf í áliðnaðinum

 

1.

Klasasamstarf í áliðnaðinum

Álklasinn er í stuttu máli samstarfsvettvangur fyrirtækja í áliðnaði og tengdri starfsemi á Íslandi og hefur það að markmiði að auka virði þeirra fyrirtækja sem starfa í klasanum.

Í því felst að leita tækifæra til nýsköpunar og þróunar jafnt innan starfandi fyrirtækja sem og nýrra fyrirtækja, að stuðla að rannsóknum og fræðslu á sviði áliðnaðar, vinna að framþróun í umhverfis- og öryggismálum og efla ímynd greinarinnar í heild.

2. gr.

Markmið siðareglnanna

Siðareglur þessar eru samþykktar á fundi fulltrúa álfyrirtækja, þann 31. janúar 2014 og eiga þær að gilda fyrir það starf sem fram fer innan formlegs klasasamstarfsvettvangs á sviði álklasans. Gert er ráð fyrir að nýjar siðareglur gangi í gildi þegar samstarfið hefst með formlegum hætti og að þær muni byggja á þessum siðareglum.

3. gr.

Störf klasastjóra og klasaaðila

 

Klasastjóri

Klasastjóri gætir trúnaðar um upplýsingar sem hann fær í starfi sínu og gæta ber trúnaðar um. Þessi þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum.

Í gagnaöflun sinni um áliðnaðinn gætir klasastjóri þeirrar meginreglu að aðeins séu birtar upplýsingar um klasasamstarfið í heild og að slík birting brjóti ekki gegn ákvæðum samkeppnislaga. Klasastjóra ber að gæta þess að dreifa ekki sundurliðuðum upplýsingum til klasaaðila.

Klasastjóri skal forðast hagsmunaárekstra í störfum sínum og vekur athygli á því ef hætta er á þeim. Klasastjóra ber að sýna öllum aðilum að samstarfinu sanngirni og gæta þess að mismuna ekki einstökum klasaaðilum.

Klasaaðilar

Klasaaðilar taka þátt í störfum félagsins af trúmennsku og heiðarleika. Þeir skulu gæta þess í hvívetna að hátta störfum sínum í samræmi við gildandi lög og gott siðferði.

Klasasamstarf í áliðnaðinum er samstarfsvettvangur einyrkja, fyrirtækja, félagasamtaka og stofnana sem mörg hver eru í innbyrðis samkeppni. Klasaaðilar skulu gæta þess að samskipti þeirra á klasasamstarfsvettvanginum brjóti aldrei í bága við samkeppnislög á hverjum tíma, heldur ýti undir frekari samkeppni þeirra á milli í samræmi við tilgang félagsins.

Skipulag og framkvæmd funda á vegum klasasamstarfsins skal vera gegnsætt og með þeim hætti að ekki sé hætta á ólögmætri upplýsingamiðlun milli keppinauta á markaði. Fundir klasasamstarfsins skulu vera boðaðir með dagskrá og fundargerðir haldnar.

Klasaaðilar skulu forðast hagsmunaárekstra í störfum sínum og vekja athygli á því ef hætta er á þeim.

 

Siðareglur þessar voru svo samþykktar á stofnfundi Álklasans þann 29. júní 2015.